Námskeið um jurtir

Anna Rósa grasalæknir kennir konum í flóttamannabúðum að búa til vörur úr jurtum, bæði til eigin nota og til að afla tekna. Námskeiðin eru byggð upp á vali kvennanna sjálfra og þeirra þörfum og þær taka vörurnar með sér heim. Sem dæmi kennum við að búa til vörur fyrir verki og sár sem mikil þörf er á. Eingöngu eru notuð staðbundin hráefni og áhersla lögð á sjálfbærni og umhverfisvernd.

Námskeið fyrir leiðbeinendur

Anna Rósa mun þjálfa kvenleiðtoga mismundi ættbálka til að kenna jurtanámskeiðin í fjarveru sinni. Á þennan hátt mun þekkingin ná til sem flestra en í flóttamannabúðunum búa um 88.000 manns.

Vöruþróun

Mikil býflugnarækt er á svæðinu og býflugnabændur framleiða ýmsar vörur úr afurðunum. Þeir hafa mikinn áhuga á frekari vöruþróun með jurtum, bæði til að endurbæta núverandi vörur og þróa nýjar vörur. Þegar hafa nokkrir hópar lýst yfir miklum áhuga á samstarfi við Önnu Rósu með vöruþróun og markaðssetningu.

Jurtagagnabanki

Hluti verkefnis er að búa til gagnabanka utan um þekkingu kvennanna á jurtum. Ásamt þeirra þekkingu mun Anna Rósa bæta við myndum, upplýsingum um notkun jurtanna í öðrum löndum, uppskriftum og vísindarannsóknum. Þessar upplýsingar verða aðgengilegar í prentuðu og stafrænu formi.

Moskítófæla

Yfirlæknar heilsugæslunnar í flóttamannabúðunum hafa óskað eftir því að við þróum moskítófælu úr jurtum. Malaría er 44% allra sjúkdóma á svæðinu og því mikilvægt að koma í veg fyrir hana með notkun moskítófælu. Ilmkjarnaolíur verða framleiddar úr jurtum á svæðinu til að þróa moskítófælu.

Viltu skattaafslátt?

Ef þú styrkir okkur um 3.500 kr á mánuði áttu von á um 16.000 kr* í afslátt frá Skattinum.

*Útreikningar miðast við skattahlutfall í skattþrepi tvö, eða 37,95%.